..ganga...ganga

nú styttist í að göngusystur haldi til Slóveníu og það er verið að æfa sig í fjallgöngum á eyjunni fögru.. Dalfjallið var tekið í kvöld og það var algjörlega himneskt að anda að sér vorinu og fylgjast með lundanum sem er nýkominn í holurnar...veðrið svo bjart og útsýni gott til allra átta.. okkur varð hugsað til fólksins sem býr í stórborgum og nýtur ekki slíkrar víðáttu sem við höfum hér á Íslandi... þekkir ekki fjöll og dali, jökla og heita hveri....... já Ísland er frábært... en mig hlakkar mjög til að vera með göngusystrunum í Slóveníu

Svona lítur ferðaáætlunin út

Dagur 1. Sunnudagur 8.júní.  KEFLAVÍK- TRIESTE- BLEDVið förum eldsnemma á fætur og komum okkur til Keflavíkur til að ná vélinni sem fer í loftið kl. 6.00 um morguninn.Vonandi höfum við náð að hvílast aðeins áður en lent er í ítölsku borginni Trieste um hádegisbil.Á flugvellinum bíður rúta eftir okkur og fer með okkur yfir til Slóveníu, en Trieste er alveg við landamæri Slóveníu.Á leiðinni til Bled stoppum við í Postojna og skoðum hellana þar. Hellarnir í Postojna eru meðal þeirra stærstu í heimi og við förum með lest u.þ.bl. 4 kílómetra inn í þá og göngum þar undir leiðsögn heimamanna og skoðum stórfenglegar dropasteinamyndanir. Ef tíminn leifir heimsækjum við einnig kastalann Predjamski Grad, en hann er einn sérstakasti kastali Evrópu, byggður inn í hellisskúta. Seinnipartinn komum við til fjallavatnsins Bled þar sem við gistum næstu tvær nætur.(Hótelið sem við gistum á er alveg við bæinn en samt aðeins fyrir ofan þannig að mjög gott útsýni er yfir vatnið. Það heitir Best Western Kompas Hotel Bled og er fjögurra stjarna með öllum lúxus og þægindum.)  

Dagur 2. Mánudagur 9. júní.  BLEDÞennan dag tökum við það rólega og undirbúum okkur undir komandi átök. Bled vatnið er algjör paradís á jörð. Þetta er talinn einn fallegasti staður Alpanna.Við fáum okkur þægilegan göngutúr og förum síðan með bát út í eyjuna. Til að spilla ekki friðsældinni er engir mótorbátar leifðir á vatninu heldur eru notaðir sérstakir bátar sem kallaðir eru pletna og minna helst á gondóla. Þessir 7metra löngu bátar hafa verið til allt frá 12. öld. Ræðararnir róa með sérstökum löngum árum út í eyjuna á vatninu sem einnig er eina eyjan í Slóveníu. Út í eyju förum við upp tröppurnar að Kirkju Heilagrar Maríu, en kirkjan var um aldir einn helsti áningarstaður pílagríma.Þegar í land er komið er haldið áfram hringinn í kringum vatnið og farið upp í gamla kastalann sem nýlega hélt upp á 1000 ára afmæli sitt. Bled-kastalinn er eins og kastalar eiga að vera upp á háum hamri og gnæfir yfir vatnið. Héðan er fjallaútsýnið alveg æðislegt. Áður en komið er á hótelið fáum við okkur göngutúr gegnum Vintgar-fjallagilið. 

Dagur 3. Þriðjudagur 10 júní. BLED- POKLJUKA- VOTNIKOV DOM ( 1805m.y.s 4tím)- DOM na PLANIKI ( 2408 m.y.s. 2tím)Nú byrjar gönguferðin, en henni er heitið upp á fjallið Triglav (þríhöfða). Triglav er þjóðartákn slóvena og með sínum 2863 metrum er hæsta fjall landsins og einnig Júlíönsku Alpanna. Við byrjum með stuttum bíltúr upp á Pokljuka sléttuna fyrir ofan Bled og hefjum gönguna við Rudno Polje í 1400 metra hæð.Í byrjun eru gengnir skógarstígar upp frá sléttunni en síðan kemur brattur kafli gegnum Studor skarðið sem nær upp í 1800 metra hæð. Þegar þangað er komið tekur við næstum láréttur kafli þar til komið er að skálanum Vodnikov Dom. Skáli þessi er í 1805m. hæð og þarna áum við, borðum nestið og söfnum kröftum. Við gerum ráð fyrir að þessi ganga frá Rudno Polje til Vodinkov Dom taki um 4 tíma. Eftir góða hvíld höldum við áfram. Eftir að hafa gengið upp Virnar hæðina tekur hin grösuga Konjska hásléttan við í 2020 m.hæð en síðna er það urð og grjót þangað til komið er til Dom Planika skálans sem verður áningarstaður okkar þessa nótt.  

Dagur 4. Miðvikudagur 11 júní. DOM PLANIKA(2408m.y.s)- TRIGLAV (2863m.y.s 1 tími)- DOLIC (2120m.y.s 2tím)- ZASAVSKA KOCA (2071m.y.s. 2tím)Eftir góða hvíld stefnum við á toppinn. Stígurinn leiðir okkur norður eftir og upp á hrygginn á Mali Triglav (Litli Þríhöfði). Á háhryggnum opnast útsýni til allra átta nema vesturs þar sem sjálfur Þríhöfðatindurinn er. Við förum í röð eftir þröngum stígnum þar sem er hvert skref er höggið inn í bergið og  til hliðar eru sterk reipi sem hindra að maður missi fótanna og falli niður.( þetta á samt ekki að vera sérstaklega hættulegt, en við verðum að gæta fyllsta öryggis. Þannig fá allir hjálma og einnig fylgir einn leiðsögumaður á hverja  5 ) Eftir örfá skref á þröngum hryggnum erum við komin á toppinn. Við stoppum við Aljazev stólpann, en Aljazev var einn frægasti fjallgöngumaður slóvena.Eftir að hafa virt fyrir sér hið stórfenglega útsýni Alpanna er kominn tími til að halda niður aftur. Leiðin liggur nú niður að gömlum ítölskum herstíg sem leiðir okkur yfir Bovska Skrbina hrygginn sem gæti verið ennþá undir snjó að hluta, en síðan komumst að skálanum við Dolic þar sem við hvílumst og borðum hádegismat.Við höldum af stað og förum út á hina víðfeðmu Hribrace sléttu (2357m.y.s) og þaðan í sjö vatna dal Þríhöfða eins og hann er kallaður. Við förum meðfram þriðja vatninu í dalnum, Grænavatni áður en komið er til skálans Zasavska Koca en þar eigum við nótt.(Alpaskálarnir í Slóveníu eru mun fullkomnari  en hér á landi og eru miklu meira í ætt við hótel eða gistiheimili. Herbergin eru með uppábúnum rúmum og taka 2-4.Klósett og sturtur eru fram á gangi og eins og mér skilst er þetta alveg prýðileg gisting). 

Dagur 5. Fimmtudagur 12 júní. 7 VATNA DALUR ÞRÍHÖFÐA (1685 m.y.s.) BOHINJ-VATN (3 tím).Frá skálanum  fikrum við okkur yfir holt og steingarða sem jökullin hefur hlaðið upp þangað til komið er að fjórða vatninu Stóra svartavatni eða lifrarvatni sem það er einnig kallað (1830m.y.s.) við göngum meðfram því og komum að skálanum “Dom pri Triglavski Jezerom ( húsið við Þríhöfðavötnin) Þar borðum við nestið og höldum síðan áfram meðfram vötnum fimm og sex. Stígurinn fer í gegnum þétt lerkiskógasvæði, en allt í einu opnast landslagið og allur dalurinn kemur í ljós með hinu hrikalega klettabelti Ticarica (2091) í bakgrunninum. Við höldum áfram og komum að sjöunda vatninu Svartavatni (1340m.y.s.). Nú förum við að komast í byggð. Við vatnið Bohinj sem er stærsta vatn Slóveníu bíður rútan eftir okkur. Við höldum nú akandi suður á bóginn. Við förum gegnum Bled og síðan Ljublana. Alpalandslagið hverfur og mýkri línur taka við. Hæðir og dalir og víða má sjá vínakra í hlíðunum. Við förum meðfram ánni Krka og niður til heilsulindanna í Dolenska Toplice þar sem við verðum næstu tvær nætur.Hótelið í Dolenske Toplice heitir Terme Dolenjske Toplice. Þetta er flott fjögra stjörnu hótel með öllu. Þarna er innangengt að innilaugunum þar sem hitinn í vatninu er 36 gráður. Við hliðina er nýja heilsumiðstöðin Balnea, 9200 frm. laugarsvæði með öllu. Þarna er hægt að fá nudd og allskonar meðferðir til að láta sér líða vel.) Við slöppum af og látum þreytuna líða úr okkur í heitu vatninu. 

Dagur 6. Föstudagur 13 júní BELA KRAINA.Eftir púl síðustu daga er ekki úr vegi að komast í svolítið afslappaðri stemmningu. Þennan dag fáum við að spila að einhverju leiti af fingrum fram. Við dólum okkur til Bela Kraina héraðs og niður að ánni Kolpa. Þar sem við komum að ánni rennur hún í gegnum djúpan dal umlikt fögrum fjöllum. Það er mjög vinsælt að fara í kanóferðir á ánni. Það er oftast notast við uppblásna gúmmíkanóa og síðan er farið niður flúðirnar og róið á lygnari svæðum. Hitastigið í ánni ætti að vera skriðið upp fyrir 20-22gráður á þessum tíma þannig að það er bara hressandi að hoppa í og busla svolítið. Þegar líða tekur á daginn heimsækjum við vínbónda og brögðum á veigunum og síðan með heimamönnum heilgrillum við svín eða lamb og skolum niður með víni staðarins. ( Eins og ég benti á þá er þessi dagur nokkuð opinn, Kanóarnir eru ekki innifaldir í verðinu og ekki kvöldverðurinn heldur, en þetta er hræbillegt, ég get ekki ímyndað mér annað) Um kvöldið eftir góða veislu er farið tilbaka til Dolenska Toplice. 

Dagur 7. Laugardagur 14 júní DOLENSKA TOPLICE- LJUBLJANAVið náum að slappa af um morguninn og fá okkur bað í heitu vatninu, en síðan höldum við til höfuðborgarinnar Ljubljana. Þegar þangað er komið er farið í bæjarferð. Markaðurinn og gamli bærinn skoðaður og síðan er farið upp í kastalann sem gnæfir yfir borgina. Við gistum á City Hotel Ljubljana sem er þriggja stjörnu hótel mjög miðsvæðis í borginni. (Ég hef sjálfur gist á City margoft og þetta er mjög þægilegt og bara venjulegt hótel með öllu tilheyrandi, en mjög miðsvæðis, aðeins hundrað metra frá markaðnum og gamla bænum.) Um kvöldið förum við svo á einhvern góðan veitingastað og borðum síðustu kvöldmáltíð ferðarinnar. Dagur 8. Sunnudagur 15 júní. LJUBLJANA- TRIESTE- KEFLAVÍKEftir morgunmat förum við að tygja okkur af stað. Milli Ljubljana og Trieste er hraðbraut og ekki nema rúmlega klukkutíma akstur, en samt eru landamæri sem gætu tafið.

Við verðum í Trieste milli ellefu og tólf þannig að við náum vélinni heim sem fer yfirleitt um eitt leitið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Guðný. Maður getur varla beðið efir að komast af stað. Þetta er hrikalega spennandi. Kveðja Binna, göngusystir

Binna (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 10:14

2 Smámynd: Hjördís Inga Arnarsdóttir

Hljómar spennandi fyrir fjallageitur væri til að njóta fegurðarinnar en verð að njóta hennar á jafnsléttu líður ekki vel í hæstu hæðum  hlakka til að fá ferðasöguna Kveðja! Kristalskrónan

Hjördís Inga Arnarsdóttir, 10.5.2008 kl. 19:01

3 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Sælar.

Ljubljana er ein skemmtilegasta borg sem ég hef heimsótt, friðsæl og vinaleg. Fegurðin í Bled er líka mikil en sá bær er orðinn miklu meiri túristabær en höfuðborgin. Ferðin um hellana í Postojna er sérstök, fyrst er farið djúpt í hellana með lítilli lest og síðan tekur við léttur göngutúr. Ég er viss um að þið eigið eftir að skemmta ykkur frábærlega í þessari ferð.

Bestu kveðjur að austan.

Aðalsteinn Baldursson, 11.5.2008 kl. 11:31

4 Smámynd: Guðný Bjarna

já  takk fyrir innlitið og kveðjurnar... Binna mín.. ferðin nálgast eins og "óð fluga" og fyrr en varir verður hún í endurminningarbankanum... Hjördís... það er sama úr hvaða hæð maður nýtur fegurðarinnar.... aðalatriðið er að koma auga á hana..... Aðalsteinn..gaman að sjá þig á blogginu mínu... og þú átt greinilega fótspor í Slóveníu...hlakka til að feta í þau

eigið góðan dag

Guðný Bjarna, 11.5.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ljósið kemur

Höfundur

Guðný Bjarna
Guðný Bjarna

hvernig væri umhorfs ef ekkert væri ljósið ?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_0292
  • ..._024_747563
  • Lóa 11-12 vikna 024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband